Starfsmótun (e. job crafting) er markviss leið til að auka eigin vellíðan og árangur í starfi. Rannsóknir á starfsmótun hafa ítrekað sýnt fram á jákvæð áhrif hennar á virka helgun í starfi (e. work engagement) sem er andstæða við og dregur úr líkum á kulnun í starfi.
Námskeiðið hentar öllum sem eru opnir fyrir því að rýna í og móta eigin störf til auka eigin starfsánægju.
Farið verður yfir helstu þætti í starfsumhverfinu sem styðja við vellíðan í starfi. Jafnframt er lögð áhersla á hvað það er sem einstaklingar geta sjálfir gert til að hlúa að eigin vellíðan í vinnu með því að móta eigin störf út frá áhugasviði sínu og styrkleikum í takt við markmið skipulagsheildar.
Fjallað verður um hvað felst í vellíðan í starfi, hvað það er sem dregur úr henni og eykur líkur á kulnun í starfi. Jafnframt er farið yfir mikilvægi stuðnings í starfi, góðra samskipta og í hverju það felst. Auk þessa er rætt um áhrif þess að hafa hafa skýra ábyrgð í starfi, sem og frelsi til athafna um hvernig verkin eru unnin og útfærð. Sagt er frá fjölmörgum raundæmum um hvernig starfsfólk hefur mótað störf sín til að bæta eigin líðan í starfi. Dæmin eru m.a. frá viðmælendum í meistararitgerð leiðbeinanda en þar var rætt við 10 sérfræðinga, sem njóta sín í starfi, til að læra af þeim hvað það er í starfsumhverfinu sem veldur því og hvað þeir hafi sjálfir gert til að hlúa að eigin velferð í starfi.