Sigrún Þorgeirsdóttir

Sigrún hefur í rúma tvo áratugi unnið ýmist sem verkefna- og viðburðastjóri eða stjórnandi, síðast sem rekstrarstjóri í Heilsuborg (nú Heilsuklasinn) og þar áður sem hótelstjóri á Hótel Holti. Hún hefur jafnframt komið að skipulagningu fjölda ráðstefna og kennslu námskeiða um þjónandi forystu og haldið fyrirlestra og eigin námskeið um þjónustu.

Sigrún lauk nýverið meistaranámi í stjórnun frá Háskóla Íslands. Í lokaverkefni sínu rannsakaði hún vellíðan í starfi og starfsmótun (e. job crafting) en starfsmótun felur í sér allt það sem einstaklingar geta sjálfir gert til að efla eigin vellíðan í starfi. Í rannsókn sinni ræddi hún við 10 sérfræðinga sem njóta sín í starfi til að skoða hvað styðji við starfsmótun þeirra og vellíðan. Í framhaldinu setti hún fram tillögu að módeli sem byggir á fyrri skrifum og niðurstöðum rannsóknarinnar. Hér má nálgast ritgerðina sem ber heitið Starfsmótun og vellíðan sérfræðinga: ,,Þetta er ekkert bara einn hlutur, þetta er samspil”.

MENNTUN

Þjónustustjórnun MS. Háskóli Íslands. 2025.

Verkefnastjórnun. Endurmenntun Háskóla Íslands. 2010.

Viðskiptafræði BA. Anglia Ruskin University, England. 2003.

Hótelstjórnun. Hotel Management School Les Roches, Sviss. 1994.

Að njóta sín í vinnunni!

Draumur minn er að styðja starfsfólk í að njóta sín í starfi. Starfsmótun er ein leið til þess.

Rannsóknir á starfsmótun (e. job crafting) sem spanna yfir tuttugu ár sýna ítrekað fram á að starfsmótun styður við vellíðan í starfi. Hún bæði kemur af stað og viðheldur virkri helgun í starfi (e. work engagement) og dregur þannig úr líkum á kulnun.

Starfsmótun er mjög aðgengileg og er eitthvað sem við öll þekkjum. Hvað er betra en að setja á góða tónlist þegar við tökum til í geymslunni eða að fá einhvern skemmtilegan með sér í verkið? Það er dæmi um starfsmótun. Starfsmótun er margvísleg. Hún felur í sér að móta eigin störf til að vinna í takt við eigin áhugasvið og styrkleika. Við starfsmótum með því að biðja um aðstoð, setja mörk, kalla eftir spennandi áskorunum og minna okkur á mikilvægi starfa okkar. Starfsmótun kallast það þegar við rýnum í eigin störf til að takast á við hvers konar núning, sem dregur úr vellíðan, og vinna markvisst að því að bæta þar úr.

Í viðtölum við 10 sérfræðinga fyrir lokaritgerð í meistaranámi mínu við HÍ komu fram mörg dæmi um leiðir til starfsmótunar. Hér eru lýsingar tveggja viðmælenda á því hvernig þau starfsmótuðu til að draga úr álagi í starfi.

Margrét lýsti því að stjórnendur virtust ekki átta sig á umfangi verkefnanna og hversu óraunhæft það væri að hún gæti unnið þau: „Ég fékk verkefni í hendurnar og ég spyr: hvernig á ég að geta leyst þetta verkefni? Þetta eru 300 tímar og það þýðir að ég þarf að vinna tvöfalt. Ég fékk engin svör.“ Lausn hennar var einföld. „Ég færði mig um sæti, áður sat ég við á hliðina á yfirmanninum. Ég færði mig aðeins fjær. Það var strax betra því þá varð ekki svo auðvelt að snúa sér við og setja á mann verkefni, það gaf manni hvíld.“

Gauti lýsti því hvernig hann hefði tamið sér annað hugarfar til að draga úr álagi.

,,Það er alltaf næsti fundur og hann er alltaf mikilvægasti fundur í heimi. Það þarf að undirbúa hann og svo líður hann hjá og þá var hann ekkert það mikilvægur. Þannig að lærdómurinn er að anda með nefinu. Ef við hefðum ekki gert það, held ég, þá værum við búnir að brenna út"

Starfsmótun felur í sér að gera meira af því sem við njótum okkar við, breyta því hvernig við gerum það sem okkur finnst leiðigjarnt eða stressandi og finna leiðir til að vinna meira með þeim okkur þykir best að vinna með. Í því felst einnig að vinna með samskipti þannig að þau séu nærandi eða í það minnasta minna lýjandi.

Starfsmótun hefst á því að staldra við og ígrunda hvað við getum sjálf gert til að hlúa að eigin líðan. Hvernig við getum breytt viðhorfum okkar, hvernig við vinnum verkin okkar og eigum í samskiptum. Það þýðir ekki að vinnustaður og yfirmenn beri ekki ábyrgð á því starfsumhverfi sem boðið er upp á, heldur að við sem starfsfólk höfum líka tækifæri til að hafa áhrif á eigin störf og þannig á eigin vellíðan og árangur í starfi.

Sigrún Þorgeirsdóttir