Starftsmótun felur í sér að staldra við og endurskoða hvernig við eigum í samskiptum á vinnustað og hvernig við sinnum starfinu okkar og mótum það - með það að markmiði að njóta okkar í starfi.

Rannsóknir um starfsmótun sem spanna hátt í aldarfjórðung sýna ítrekað fram á að hún auki vellíðan í starfi og dragi úr líkum á kulnun.

Starfsmótun er markviss og praktísk leið til aukins árangurs og ánægju í starfi

Wrzesniewski og Dutton voru fyrstar til að nota hugtakið starfsmótun. Í þeirra huga samanstendur starf af tvennu; verkum (e. tasks) og samskiptum. Þær lýsa starfsmótun sem skapandi ferli sem felst í því sem starfsfólk gerir til að móta eigin störf innan þeirra marka sem því eru sett, oft án vitundar yfirmanna eða samstarfsfólks. Með starfsmótun breytir starfsfólk meðvitað annars vegar viðhorfum sínum til verka og samskipta, og hins vegar hvernig það vinnur verkin, á í samskiptum og myndar tengsl á vinnustað. Þessar aðgerðir breyta bæði hönnun starfsins og félagslegum þáttum í starfsumhverfinu, sem hefur þannig áhrif á bæði tilgang starfsins í huga starfsmannsins og hvernig hann skilgreinir sjálfan sig í starfi (Wrzesniewski og Dutton, 2001). 

Kulnun í starfi er eitt af mikilvægustu viðfangsefnum vinnumarkaðarins í dag (Aspelund og Tatel, 2023). Christina Maslach (2011), sem er einn helsti vísindamaður á sviðinu, bendir á að besta leiðin til að koma í veg fyrir kulnun sé að efla virka helgun í starfi. Maslach bendir jafnframt á að þau sem eru virk í starfi séu betur í stakk búin til að takast á við áskoranir og líklegri til að jafna sig í kjölfar álags. Ein leið til að efla virkni einstaklinga er starfsmótun (e. job crafting). Þær niðurstöður rannsókna á starfsmótun sem koma oftast fram eru jákvæð áhrif hennar á virka helgun í starfi (Hakanen o.fl., 2018) en starfsmótun bæði kemur af stað og viðheldur virkni í starfi (Demerouti, 2014).

Textinn hér að ofan er úr meistararitgerð Sigrúnar Þorgeirsdóttur sem ber heitið Starfsmótun og vellíðan sérfræðinga. Ritgerðina er hægt að nálgast í heild sinni hér.

Fræðin

Til baka